Geðshræring

Mig langaði bara að segja ykkur frá því hvernig upplifun mín er á aðstæðum eftir þennan hrikalega atburð í Kauhajoki í gær.

Við skiptinemar fengum sérstakt email frá skólanum þess efnis að ef við fyndum fyrir einhverju óöryggi þá stendur okkur til boða að tala við sálfræðing á vegum skólans sem að mínu mati er mjög svo virðingarvert og vel hugsað. Einnig stóð í sama pósti að kl. 12 á hádegi í dag yrði einnar mínútu þögn til að votta þeim virðingu sem létust og aðstandendum þeirra. 

Þar sem ég sit námskeið þar sem meirihluti nemenda eru skiptinemar tók kennarinn í síðasta tíma fyrir hádegi sig til og útskýrði fyrir okkur hvað hefði gerst ef við hefðum ekki fengið réttar upplýsingar og sagði okkur frá mínútu þögninni o.s.frv. Ég hugsaði svosem ekki meira um það á þeirri stundu, hef oft tekið þátt í svona þögn heima á Íslandi, en ég skal segja ykkur það að þessi upplifun hálftíma síðar fékk mig til að berjast við tárin.

Ég sat inni í mötuneyti kl. 12:00 og var að byrja að borða hádegismatinn minn. Mötuneytið var pakkfullt enda flestir í hádegishléi. Ég var nýsest niður þegar konurödd tilkynnir eitthvað á finnsku í hátalarakerfinu og í þann mund standa allir upp í salnum og ég auðvitað rýk á lappir líka. Þögnin var bókstaflega yfirþyrmandi, það hefði mátt heyra saumnál falla. Ég hef aldrei upplifað slíka samkennd og virðingu eins og akkúrat þessa mínútu. Enginn brosti, enginn sími hringdi, ekkert. Ekki einu sinni 18 ára gelgjurnar á næsta borði við mig sögðu eitt orð.

Ég var í svona örlítilli geðshræringu þegar ég gekk út úr skólanum eftir hádegið í dag. Ákvað til tilbreytingar að skella mér niður í miðbæ og spóka mig í góða veðrinu. Það er yndislegt veður í dag, nánast heiðskírt, sólin skín og haustlitirnir allsráðandi. Þrátt fyrir það er alls staðar sem sjá má flaggstöng í Helsinki flaggað í hálfa. Þrátt fyrir að það sem gerðist sé auðvitað hræðilegt þakka ég fyrir að vera hérna og upplifa þessa virðingu fyrir náunganum sem er við lýði hérna. Það er enn að bætast á listann minn yfir það sem við Íslendingar megum læra af frændum okkar Finnum.

Flaggað í hálfa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega, góð lokaorð.

Hræðilegur atburður en í svona aðstæðum finnur maður samkenndina, meira að segja þó maður sé útlendingur. 

Eyrún Ellý 24.9.2008 kl. 14:23

2 identicon

gæsahúð......

jolly 24.9.2008 kl. 14:26

3 identicon

heyr heyr... við mættum taka marga okkur til fyrirmyndar  - hérna hugsar hver um sitt rass*** og engan annan!

Ég er bara fegin að vera á litla Íslandi... þar eru ekki sprengjuhótanir á lestarstöðvum eða skotárásir í skólum!  

Elí frænka 24.9.2008 kl. 14:27

4 Smámynd: Rósa Gréta Ívarsdóttir

Það er rétt, svona allavega í bili...

Ég var að hugsa um þetta ef eitthvað svona myndi gerast á Íslandi. Auðvitað myndi skapast mikil samkennd, ætla ekki að neita því... en það er þessi yfirvegun og virðing sem einkennir allt hérna. Heima er fólk svo fast í því að rífast, vera með læti og finna blóraböggul fyrir öllu saman. Það er allavega mín upplifun.

Rósa Gréta Ívarsdóttir, 24.9.2008 kl. 14:33

5 identicon

Úff, ég hugsaði til þín þegar ég heyrði fréttirnar á þriðjud. Mér fannst strax gott að vita að þetta átti sér ekki stað í Helsinki, vitandi af þér þar.

JRR 26.9.2008 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband