Færsluflokkur: Bloggar

V.I.P. skiptineminn

Moi!

Loksins kemst ég inn á bloggið mitt!!! Það hefur semsagt verið vandamál í gangi hérna, vírusvandamál sumsé... en ég held ég hafi náð að losa mig við það í dag!

Hvert var ég komin... uh já ÉG ER SEMSAGT FLUTT! Búin að búa hérna á Pasilanraitio 6E í rúma viku og líkar alveg ljómandi vel! Ég er með 2 meðleigjendur sem heita Johanna og Anna Rosa en Johanna er í verknámi og verður ekki heima næstu 6 vikurnar svo við erum bara tvær hérna og það er ágætt. Þær eru báðar finnskar og Anna Rosa fær næga æfingu í því að tala enskuna við mig þar sem hún er ekki svo sterk í henni og ég náttúrulega bara ótalandi á finnsku eða svona... ég er að byrja að læra! Ég er líka komin með finnskt númer: +358 44 966 4525 fyrir þá sem ekki vita.

Ég fór út á Pasila station með eitthvað skjal á finnsku frá skólanum í höndunum fyrir síðustu helgi og ætlaði að versla mér strætó/lestarkort - jújú bjóst við því að borga svona 40 evrur fyrir það eða eitthvað - nei heyrðu... 6 evrur á einhverjum stúdentaafslætti, are you kidding me? Ég var búin að geyma það í heila viku að versla þetta því ég hélt þetta væri svo dýrt.
Heyrðu reyndar varð smá misskilningur með þetta blessaða kort (eftir að hafa farið 2svar frítt í strætó og sagt við strætóbílstjórann að þetta væri sérstakt stúdentakort og voða fancy) en nei þetta hlaut að vera of gott til að vera satt haha! Ég sá á netinu semsagt að þetta er til að fá 50% afslátt í lengri lestar- og rútuferðum frá Helsinki, ekki innanbæjar.. haha, góð Rósa Gréta! Blush

Það er fyndið hvað margir reyna að tala finnsku við mig. Reyndar held ég að fyllibyttan fyrir utan verslunarmiðstöð í Itekäskus hafi verið að blóta mér í sand og ösku þegar ég sagði "Sorry, I don't speak finnish" en who cares, ég skil ekki baun! Ef svo væri, þá fengju þeir bara einn á lúðurinn!

 

Aðeins af skólanum...
Ég er aðeins byrjuð að læra heima í skólanum. Þetta er að byrja svo rólega, ég kann ekki á svona. Til dæmis er eitt námskeið sem ég er í á fyrsta hluta þessarar annar, "Managing competitive advantage" sem að mati kennarans telst erfitt námskeið því við eigum að skrifa 10 bls ritgerð og kynna hana í október. Nota bene, við erum 3 saman að gera þetta - tja, að mínu mati er það aðeins of auðvelt en sjáum til!
Það er gaman að sjá hvað skiptinemarnir standa misvel í enskunni, til dæmis var ein kona að kynna sig í "Corporate Communications" eins og ég gerði í fyrsta tímanum, og hún ætlaði að vera með rosa töff slagorð: "Don't have regards for anything!" - sem þýðir: "Ekki bera virðingu fyrir neinu!" er það ekki? - Greyið, ætlaði semsagt að skrifa "regret", haha krúttið!
Það er afar sérstök kona að kenna mér PR English, mjög bresk í útliti og dáldið beisk... jæja, ég ætla samt ekki að tala illa um hana því hún elskar Ísland og sagðist hafa farið til Reykjavíkur einu sinni en orðið dálítið þreytt á lárétta rokinu okkar haha! Hún spurði síðan bekkinn hvort einhverjir fleiru hefðu farið til Reykjavíkur en einhver skiptineminn misskildi hana og sagði "We are from Hungary" og þá svaraði hún mjög beiskt "Yes... good, and welcome to the class." - Haha, ég er semsagt í náðinni hjá henni skulum við segja!
Ég skilaði svo fyrsta finnskuverkefninu mínu á fimmtudaginn, það var áhugavert. Ég fékk frí í tíma til að gera þetta og allt saman eins og ég hafði minnst á áður... haha hér eru nokkur brot úr verkefninu:

"Kaunis ilma tänään" - Hvernig ilma tærnar var mitt fyrsta gisk. Google Translate sagði hinsvegar "A beautiful aircraft today" - svo á eðlilegu talmáli þýddi þetta líklega "Fallegt veður í dag"...

"Minä olen Rósa. (Mun nimi on...). Mä olen kotoisin Islantesta. Minä olen islantilainen. Olen 25-vuotias. Minä puhun islantiaa, englantiaa ja tanskaa."
Sem á íslensku myndi vera svo mikið sem:
"Ég er Rósa.(Nafn mitt er...). Ég er Íslendingur. Ég er íslensk. Ég er 25 ára. Ég tala íslensku, ensku og dönsku."

"Anteeksi" er búið að bætast við orðaforðann minn og þýðir það "Afsakið". Gott að vita það.

"Mitä kuuluu" - Hvað segirðu?

"Kiitos hyvää. Entä sinuelle?" -  Fint takk, en þú?

"Hanska tutustua!" - Gaman að kynnast þér!

"Hyvää viikonloppua" - Góða helgi!

"Puhutko englantia?" - Talarðu ensku?

 

Nýnemaratleikurinn var á miðvikudaginn. Ég var í hóp með nokkrum strákum frá Þýskalandi og Ghana fyrstu klukkutímana og svo bættust við krúttin frá Kóreu og stelpur frá Austurríki sem heilsuðu mér á eftirfarandi veg: "Hey, you are Rósa, right? You are the v.i.p. exchange student that the international office is always talking about!" - Ekki var það verra! Cool Steffen, strákur frá Þýskalandi, sagði mér að flestir skiptinemarnir sem hann þekkti væru að borga 375 í leigu fyrir svona "fangaklefa" eins og ég var í fyrstu dagana og yfirleitt "unfurnished" - það er normið. Ég er semsagt bara hoppandi kát með mínar 300 evrur í leigu og deili bara eldhúsi með 2, hinir deila eldhúsi með svona 5-6! Heyrðu, já, það var svona eftirpartý eftir nýnema/skiptinema ratleikinn sem ég ætlaði að fara í. Ég var hinsvegar svo dauðþreytt um kvöldmatarleytið þegar ég kom heim að ég steinsofnaði og vaknaði ekki fyrr en 02:30 um nóttina og svaf semsagt af mér partýið!!!

Núna á föstudagskvöldið fór ég á bjórkvöld hjá Íslendingafélaginu hérna í Finnlandi. Það var nú meira fjörið! Ég tók til að byrja með tram aðeins of langt svo ég endaði í miðri mannþvögunni niðri í bæ sem var að horfa á einhverja flugeldasýningu. (jafnaðist þó ekkert á við áramót heima á Íslandi...)
Aldrei hef ég samt verið jafn ánægð að labba inn á bar og sjá mann í lopapeysu og bol sem á stóð "Aldrei fór ég suður" - Ég rauk beint á hann með bros á vör og sagði "HÆ ERT ÞÚ EKKI ÍSLENSKUR!!!" - Ég hitti margt skemmtilegt fólk á þessu kvöldi og einnig fékk ég að vita það að ef ég tæki lest upp til Tampere myndi það kosta mig kannski svona 40 evrur að fljúga fram og til baka til Riga - semsagt lestin upp til Tampere yrði bókstaflega dýrari en flugið - held ég verði nú að íhuga að skella mér, er það ekki?
En já, ég endaði svo kvöldið á pöbbarölti með strák sem heitir Raggi, stelpu sem hann leigir íbúð af og svo bróður þessarar stelpu, sem heitir Kari (borið fram Kari, ekki Kári) og við skemmtum okkur konunglega saman. Á einum skemmtistaðnum fór reyndar einhver pínulítill maður frá Nígeríu að tjá sig aðeins of mikið við mig, sagðist hafa munað eftir mér af Oluthuone Kaisla (staðurinn sem bjórkvöld Íslendingafélagsins var) - tja, örlítið creepy verð ég að segja!

Helgin einkenndist svo bara af þrifum og þvotti. Kannski ekki alveg tíminn til að vera að þurrka þvott því það rigndi eiginlega allan daginn í gær sem skilaði sér í rökum þvotti og frizzy Tinu Turner style hári... mjög töff svona í anda 80's. Það rignir einmitt afar mikið hérna þessa dagana enda er ég búin að kaupa mér þriðju regnhlífina mína. Einhvern veginn er það ekki í forgangi að kippa með sér regnhlíf þegar maður pakkar niður heima á Íslandi!

Heyrðu, segjum þetta gott í bili - myndir frá nýnemadeginum eru HÉR ef einhvern langar að skoða!

Ystävällisin terveisin,
(bestu kveðjur)

Rósa,

vaihto-opiskelijana Helsingissä
(skiptinemi í Helsinki)

p.s. Bára, manstu eftir Mais, havre, ris og hvede? Það er uppáhaldið mitt hérna úti núna - "maissia, kauraa, riisiä og vehnää" alla daga!


Ágúst myndir frá Helsinki!

Ég er loksins búin að hlaða inn fyrstu myndunum héðan frá Helsinki inn á Flickr síðuna mína. Það er ekki hægt að skilja eftir athugasemdir nema skrá sig inn í Flickr kerfið en það kostar ekki neitt og er frekar auðvelt svo ég hvet alla til að skrá sig Joyful

Smelltu hér til að skoða ágúst myndirnar mínar frá Helsinki!


Flutningar framundan...

Ég kom í skólann í morgunn kl. 07:50. Miði utan á stofu 2206 þar sem ég átti að vera í tvöföldum tíma fram að hádegi. TÍMANUM AFLÝST!!! Þannig að ég vaknaði kl. hálfsjö í morgun, sléttaði á mér hárið og gekk í grenjandi rigningu í strætó... for nothing!!!

Allt í lagi...

Ég er að flytja í dag. Það er ánægjuefni Joyful Og þriggja daga helgi framundan - eins og alltaf reyndar, þvílíkur lúxus! Á ég að tala um meiri lúxus? Ég fæ alltaf frí í tímum þær vikur þar sem skilaverkefni eru sett... dytti Íslendingum þetta einhvern tímann í hug?

Síðasta helgi var viðburðalítil. Ég horfði á 9 þætti af Grey's Anatomy, kláraði semsagt alla þættina sem ég tók með mér á tölvunni. Held ég sé alveg týpa í að verða hooked á þessum þáttum! Í einum þættinum var gaur sem slasaðist sem hét Viper... (eingöngu tekið fram því þetta finnst einhverjum fyndið sem byrjar á J og endar á ana)

Fyrsti skóladagurinn á mánudaginn gekk bara ágætlega. Ég borðaði í hádeginu með Christine frá Sviss, hún er líka að koma svona ein eins og ég... nema hún býr með 2 þýskum stelpum hérna úr skólanum, Danielu sem ég hef minnst á áður og annarri gellu sem guð má vita hvað heitir. Mötuneytið hérna er bara það geðveikasta sem ég hef komið inn í, maturinn kostar um 3 evrur og þú getur bara gommað í þig eins og þú vilt.
Þann dag var sterageitungur í strætó... tja, eða vespa, skiptir ekki máli en allavega skyggði þetta dýr á sólu. Mér var svosem sama að hann væri þarna inni svo lengi sem hann léti mig í friði. Ef þetta hinsvegar hefði verið randafluga hefði ég migið á mig. Ég komst einnig að því að ég deili eldhúsi með 10 manns þarna í Talonpojantie 15 og það fólk eldar á furðulegustu tímum sólarhringsins. Yfirleitt svona um 22-23 á kvöldin...? Einnig tala þau ekki finnsku og rífast voða mikið... ég hef bara vanið mig á að halda mig inni í herberginu mínu á þessum tímum haha!

Það var frí í PR English á þriðjudaginn sem ég áætlaði sem svona "easy" námskeiðið mitt. Það eru nokkrir Frakkar í þessum tímum með mér og litlu krúttlegu stelpurnar frá Kóreu líka. Þau tala öll afar takmarkaða ensku. Hlakka til að sjá hvernig kennslan verður í því.

Í gær byrjaði ég í námskeiðinu Corporate communications, það virkar mjög spennandi. Við höfðum það verkefni fyrir fyrsta tímann að gera kynningu á okkur sjálfum... eða auglýsingu um okkur sjálf og tvinna inn í það okkar "life philosophy" eða slogan sem lýsir okkur. Ég hélt að ég hefði setið í ALLT of marga klukkutíma við það að dunda mér við að búa til eina glæru um sjálfa mig... ónei, þarna var fólk sem er alveg að leggja jafn mikið á sig og ég og lagði jafnvel í að búa til kynningarvideo um sig... þetta verður challenge! Ég verð nú að viðurkenna að stressið truflaði mig nú aðeins þegar ég stóð upp til að kynna mig. Við erum 40 í tímanum og komumst ekki öll að svo þegar kennarinn sagði "We have time for one more, then we'll call it a day!" - Þá stóð ég upp sem sjálfboðaliði, ég ætlaði sko ekki að vera gungan í hópnum! Það er annars fyndin stelpa með mér í þeim tímum, eða meira svona krútt eins og stelpurnar tvær frá Kóreu. Hún þessi er frá Kína og heitir eitthvað sem ég man ekki en hún vill láta kalla sig "DingDing" - ég ætla ekki að hlæja að því, en ... ómæ er það ekki smávegis fyndið?

Erfiðasta námskeiðið sem ég er að taka er án efa Financial planning and international finance - Kennarinn er mjög skemmtileg týpa, Pukka eða Pukke, man ekki. Hann er annars svona über kaldhæðinn og ég geri fátt annað en að brosa út í annað að bröndurunum hans. Held hann sjái það alveg þar sem ég sit fremst - kennarasleikjan! Halo  Ég fékk líka að heyra fyrsta "Það er svo kalt á Íslandi" brandarann frá honum: "November in Finland is like May in Iceland!" - held hann þori að skjóta á mig þar sem hann sér að ég höndla það haha. Það var einnig umræða í gangi seinna í tímanum í gær og allt í einu byrjar sími að hringja hjá einni stelpu í stofunni, hún fékk næstum taugaáfall og stökk alveg til í sætinu til að finna símann, enda ein af þeim sem er ekki að fatta kennarann. Heyrðu, minn byrjar bara að dilla sér og dansa upp við töfluna við tónlistina úr símanum, ég hélt ég yrði ekki eldri. Minnti mig örlítið á pabba jafnvel haha! Hann minnir mig líka aðeins á Sigga Hjartar í MH varðandi húmor... þið sem sátuð tíma hjá honum þar vitið hvað ég meina!

Heyriði, ég skal lofa að setja inn einhverjar myndir um helgina þegar ég er búin að koma mér fyrir á nýja heimilinu mínu. Ég er búin að búa í ferðatösku í 10 daga svo ég hef ekki nennt að finna snúruna í myndavélina þar sem hún er einhvers staðar grafin ofan í töskunni.

Hér er hinsvegar screenshot af glærunni sem ég notaði til að kynna sjálfa mig - mjög corny og hrikalega íslenskt, ég sá það eftir á... en hey, ég er líka íslensk!!!glærafyrirkynninguCC
Ég ætla að fá mér eitthvað að borða núna og æfa mig að bera fram nafnið mitt á finnsku fyrir tímann eftir hádegi.

Ástarkveðjur frá Helsinki!

Innskot kl. 09:30
Það var að setjast gaur við borðið hjá mér hérna á fyrstu hæð skólans þar sem það er svona lítil matsala og fullt af litlum kringlóttum borðum. Þetta finnst mér dálítið merkilegt því Íslendingum finnst þetta mjög spes, að setjast bara á borð hjá einhverjum sem þú þekkir ekki, frekar stæðum við bara upp á endann. Við erum svo einstök... haha! Hér finnst mér tilvalið að birta stjörnuspána mína fyrir daginn í dag:

stjörnuspá 28.08.08


The one and only...

Þetta er önnur löng færsla... bara því ég nenni ekki að blogga daglega... Wink

Á miðvikudaginn vaknaði ég á hádegi... hahaha, ég er nú meiri!  (ég endurtek samt að ég er þremur klukkustundum á undan hérna, svo ég hafði afsökun... þó svo að þessi afsökun sé orðin ógild núna þar sem það tekur bara einn dag fyrir hverja klukkustund að venjast tímamismun! Blush)

Ég fór þann daginn í strætóleiðangur svona til að finna út hvar skólinn minn væri og hversu lengi ég væri með strætó o.s.frv. - alveg búin að stúdera þetta á ytv.fi en ætlaði að prufukeyra þetta. Það gekk nú vel... aðra leiðina.
Ég held ég hafi án gríns labbað svona 5 km á leiðinni heim því ég fór út einu stoppi of seint og var ekki alveg viss um hvar ég var (tja, eða bara alveg clueless hvar ég var satt best að segja!) Íslendingurinn í mér tók nefnilega ekkert kort með sér enda átti þetta bara að vera strætóferð fram og til baka, auðvelt og fljótlegt! Leiðin sem slík var ekki leiðinleg, ég hugsaði þetta bara sem ratleik: "Finna næsta skilti sem á stendur "Viikki" sem er já hverfið sem ég bý í þessa stundina. Ja, það tókst... en það stóð "Viikki/Vik 3" og ég uppgötvaði strax hvað þessir 3 stóðu fyrir... kílómetrar, og ég var á einhverjum göngustíg!!! Þarna var ég búin að labba í svona 40 mín um reyndar afskaplega fallegt hverfi, en í svona 25 stiga hita og miklum raka. Finnst reyndar alveg synd að ég var ekki með myndavélina með mér því ég hefði getað tekið myndir af svo mörgu fallegu á leiðinni. Jæja, ég lofa að hafa hana á mér from now on!

Á fimmtudaginn var fyrsti orientation dagurinn fyrir okkur skiptinemana og auðvitað svaf ég yfir mig. Ég vaknaði semsagt kl. 11:30 og átti að vera mætt niður í Haaga - Helia kl. 12:00. Ég henti mér í föt, tagl í hárið og 2 súkkulaðimolar í morgunmat (já, ekki ætlaði ég að verða máttlaus af orkuleysi) og svo hljóp ég ÚT! Ég mundi frá því daginn áður að það var svona hálfgerð leigubílaröð hérna neðar í Talonpojantie svo ég hugsaði að í versta falli myndi ég bíða þar og vona að það kæmi leigubíll ef ég missti af strætó. Jæja, þarna var ég hlaupandi niður götuna og var heilum 2 mínútum of sein, strætó farinn og enginn leigubíll sjáanlegur við TAKSI skiltið! Shit, á þessum tímapunkti fór ég að íhuga að húkka far haha þó ég vissi að þetta myndi reddast en samt... ótrúlega týpískt ég að sofa yfir mig fyrsta daginn í skólanum!
Heyrðu, kemur ekki þessi yndislegi leigubíll keyrandi og stoppar við TAKSI skiltið svo ég hleyp til hans og reyni að gera mig skiljanlega að ég vilji fara á Ratapihantie 13 í Pasila. Tja, maðurinn talaði enga ensku, bara finnsku svo ég reyndi að tala hægt og skiljanlega og apa eftir finnskum hreim og viti menn, hann sagði: "Ahhh... Pasila?" og þá vorum við vinir.

11:56 var ég svo mætt niður í Haaga - Helia - haldiði að það sé nú, trúið þið þessu, ég var mætt "snemma"!!!

Skiptinemar í Haaga - Helia eru um 200 talsins á þessari önn, um 100 á mínum campus, Pasila. Allt í allt eru um 10.000 manns í skólanum. Í upptalningunni á því hvaðan fólk væri kom í ljós að flestir skiptinemar á Pasila eru frá Hollandi, eða um 19 stykki! Hollenska mafían bara mætt á svæðið. Spánverjar fylgdu þeim fast á eftir, eða um 15 talsins og svo Frakkar. Ég er hinsvegar fyrsti og eini Íslendingurinn í þessum skóla, takk fyrir pent. Eða eins og konan sagði sem var að telja upp löndin sem skiptinemarnir voru frá: "You're making history, you are the first student from Iceland, we're excited to have you here" - Takk takk Cool - Hún sagði mér svo í gær að hana minnti að það hefði verið Íslendingur í skólanum fyrir svona 5 árum en hún var ekki viss.

Eftir nokkrar kynningar, þ.á.m. frá einhverjum agalega fyndnum tölvudúdda, dálítill ístrubelgur með bluetooth í eyranu, axlabönd, sítt hár og skegg, svona á miðjum aldri... segi ekki meir, kannski bara útlifaður og rúmlega þrítugur... hvað veit ég? En já, þá var prógramminu lokið þann daginn semsagt. Mér líst bara svakalega vel á þetta, skólinn er stór og flottur, nútímalegur og ég held mér eigi bara eftir að líka vel þarna.

Ég fór og skoðaði herbergið hjá Eriko sem ég flyt í á næsta fimmtudag og vá, ég er í skýjunum. Þetta er hornherbergi í íbúð á 4.hæð, gluggar á tvo vegu, stórt rúm, tvíbreiður svefnsófi (hint fyrir gesti), stórt og mikið eldhús með svölum og rúmgott baðherbergi. Já, og bara 10 mín labb í skólann - ég er bara í skýjunum!

Nýja heimilisfangið mitt verður semsagt:
Pasilanraitio 6E 67
00240 Helsinki

Eftir að hafa skrifað undir pappíra út af herberginu tók ég tram niður í bæ (sporvagn) og rölti þá um þann hluta miðborgarinnar sem ég var ekki búin að skoða, Dómkirkjuna sem er ofsalega falleg, höfnina og Aleksanterinkatu sem er stór verslunargata hérna. Ég eiginlega gapti bara allan tímann, pirruð yfir því að hafa ekki myndavélina mína en ég er gjörsamlega kolfallin fyrir þessari borg.

Í gær fór ég aftur upp í skóla, annar dagur orientation. Ég held ég standi dálítið vel að vígi hvað varðar enskukunnáttu. Okkur var skipt niður í hópa eftir academic advisors sem við erum með og mín er nú dálítið fiðrildi... finnst stundum eins og hún sé að reykja eitthvað annað en tóbak en annars mjög indæl. Jæja, okkur var svo skipt í minni hópa til að láta okkur kynnast aðeins og við fengum það verkefni að segja hvaða væntingar við hefðum til dvalarinnar hérna í Helsinki. Ég lenti í hóp með Frökkum sem töluðu svo takmarkaða ensku að aðeins einn úr hópnum talaði við mig. Hin umluðu bara eitthvað "oui oui..." Það verður áhugavert að lenda með þeim í tímum, segi nú ekki meira! Jæja, ég var látin kynna niðurstöðu hópsins, og svo ropaði ég því upp úr mér líka að það væri heitt hérna og gott veður og mér líkaði það vel að hafa 25 stiga hita og sól í lok ágúst. Kóreubúarnir og fólkið frá Mexíkó var ósammála og sagði að það væri kalt... Pouty

Það settust svo einhverjar stelpur við hliðina á mér á kynningu í dag. Þær vissu hver ég var og ég væri ein að koma frá Íslandi. Þeim fannst ég víst voða hugrökk að koma ein en ég brosti og svaraði "I don't think I'm so brave, it's just a great experience" (en ég held að þær hafi misskilið mig og fundist ég vera hrokafull... úpsí!) Allavega, þá fengum við að vita á þeirri kynningu að Kanto (skiptinemastúdentafélagið) býður upp á ferðir til Lapplands í desember, St. Pétursborgar í okt eða nóv og siglingu með öllum skiptinemum í Helsinki: Helsinki-Stokkhólmur-Tallinn-Helsinki. Það hljómar mjööög spennandi! Við fengum líka kynningu frá skiptinema sem er búinn að vera hér í 2 ár í námi og hún var að segja okkur frá því hvað henni hefði fundist merkilegt í Finnlandi. Henni fannst maturinn og veðrið standa upp úr... blóðpylsa, pylsa í brauði með einhverju ofan á og svo hvað veðrið gæti breyst mikið á einum degi.
Þetta kom mér lítið á óvart, blóðmör, pylsa með öllu og stórfurðulegt veður = Ísland?

Jæja meðan við vorum að bíða eftir því að fara í sightseeing túrinn um Helsinki settist voða nice stelpa við hliðina á mér, Daniela frá Þýskalandi. Henni fannst ég vera heppin að vera að læra á mínu eigin tungumáli, semsagt enskunni. Hún vissi ekki að Íslendingar ættu sitt eigið tungumál. Ég tek þessu bara sem hrósi að enskan mín sé svona góð... en ómægod?!

Sightseeing túrinn var skemmtilegur. Konan sem var tour-guide reyndi samt að tala við mig á finnsku í miðjum túrnum en hún fattaði að ég væri ekkert að skilja þegar ég starði bara á hana þegar hún talaði við mig. Ég hélt bara að hún væri örlítið spes og væri að tala við sjálfa sig. Þetta er ekki í fyrsta og örugglega ekki í síðasta skipti sem ég lendi í þessu, þar sem ég er svona ljós yfirlitum eins og Finnarnir og allt öðruvísi en hinir skiptinemarnir þar sem þau eru flest frá "dökkhærðum" löndum ef svo má segja.

Eftir túrinn rölti ég aðeins meira um miðborgina, skoðaði í búðir og drap tímann þar til skiptinemarnir áttu að hittast á Mecca bar. Þar settist ég hjá einhverju liði frá Porvoo campus sem var svo hrokafullt út í verðlagið í Finnlandi og fannst þetta svo skrýtið og furðulegt land að það var sama hvað ég sagði að Ísland væri dýrara, þá bara fussuðu þau og sögðust aldrei ætla þangað heldur. ÞEIRRA MISSIR SEGI ÉG... (haha, þjóðremban í hámarki LoL)
Það var svo svona menningarnótt í gær hérna í Helsinki svo miðborgin var troðfull af fólki, ég var hinsvegar svo þreytt að ég fór bara heim um 10 leytið!

Fróðleiksmolar dagsins:
Talonpojantie, gatan sem ég bý í eins og er, þýðir á sænsku Bondevägen eða bóndavegur, það útskýrir af hverju mér finnst ég hálfpartinn vera úti í sveit, fann m.a.s. fjósalykt áðan, sá reyndar engar kýr, bara tún og traktor!

Götuheiti enda ýmist á -katu, -entie, -kylä, -isto, -unki, -ankaari o.fl. o.fl. svo ég hef ekki enn getað yfirfært þetta á -gata, -stræti, -vegur NEMA ég sá eina götu sem hét eitthvað "...mannagatan" - það var hresst.

Ég kann að segja hei og moi sem þýðir hæ og halló... og að segja kiitos sem þýðir takk fyrir.

Segjum þetta gott í bili,

Helsinki out!


Dagur 3 í Helsinki

18.ágúst kom ég til Helsinki með morgunflugi. Sá dagur einkenndist af miklum svefni þar sem ég náði lítið að sofa um nóttina og hvað þá í flugvélinni. Mamma skutlaði mér út á flugvöll eldsnemma og við sáum sólina koma upp á bakvið okkur, þvílík og önnur eins sólarupprás, hef aldrei upplifað svona. Eftir það keyrðum við undir regnboga, mamma var sannfærð um að þetta væri mikið gæfumerki :) Eftir að hafa kvatt mömmu án þess að gráta, þó það hafi verið erfitt og beðið í röð í svona hálftíma til að tjekka mig inn reyndi ég að hringja í Tinnu svona fjórum sinnum því hún var líka að fara í flug, bara klukkutíma á undan mér og ég átti eftir að kveðja hana. Hún svaraði ekki sem mér fannst mjööög spes, en komst svo að því áðan að hún hefði gleymt símanum heima! Tinna, ég kveð þig bara seinna hahaha!

Heyriði, ég var með 5,7 kg í yfirvigt, ég kann ekki að travel light en ég held ég sé afsökuð þar sem ég er hérna í fjóra mánuði!

Ég fékk leigubíl eins og skot fyrir utan flugstöðina í Helsinki sem skutlaði mér hingað í Talonpojantie þar sem voða fínn strákur beið eftir mér með pappíra og lykla. Hann sýndi mér svo hvernig allt virkar hérna, þvotta- og þurrkherbergið (ójá, þurrkherbergi með viftum!) og hvar næsta búð væri og strætóstopp og svona. Ég er semsagt í herbergi 3 í Talonpojantie 15, en samt heitir það herbergi 103 þar sem ég er á fyrstu hæð... or so I guess! Hér verð ég fyrstu 10 dagana eða þar til ég fæ herbergið hjá japönsku stelpunni í Pasila sem ég leigi af frá og með 28.ágúst.

Ég er á jarðhæð og þetta Talokartano háskólaþorp sem ég bý í er svona inni í skógi eiginlega. Herbergið hérna er bara stórt og fínt, agalegt rúm samt, hálfgerður hermannabeddi.  Þessi strákur sem fylgdi mér í herbergið sagði mér að ef ég týndi lyklinum þyrfti ég að borga 200 evrur fyrir svo ég hef hann í vasanum hvert sem ég fer, m.a.s. á klósettið!

Ég var semsagt svo þreytt þegar ég kom hingað að ég steinsofnaði í svona 4 tíma í svefnpokanum, já nú var gott að hafa tekið helvítið með því þó svo að ég hafi verið með 5,7 kg í yfirvigt gleymdi ég rúmfötum!!!

Í gær vaknaði ég upp úr kl. 13 (Nota bene, Finnland er 3 tímum á undan!). Jæja, ég var komin á fætur, glorhungruð því ég hafði eytt deginum áður í það að sofa og það eina sem ég átti var hálfur líter af vatni sem ég hellti í mig. Ég fór yfir á skrifstofuna hérna til að borga restina af leigunni og fá internettengingu sem datt inn í dag. Eftir að hafa skrifað undir 4 plögg, m.a.s. 1 fyrir að fá lánaða netsnúru fór ég aftur heim og ætlaði í sturtu. Tja, þá komst ég að því að ég hafði hvorki tekið með handklæði, sjampó né tannkrem heldur haha! 
Heyrðu, ég tölti bara niður í Alepa, sem er svona eins og 10/11 allavega m.v. verðlagið og keypti mér eitthvað að borða og svo hófst leitin að handklæði, eða í versta falli borðtusku eða viskastykki. Nei, ekki fannst það nú svo nú voru góð ráð dýr. Ég rak augun í einhverja rúllu af náttúruvænum tuskum sem hægt var að klippa niður eftir hentisemi, þrír metrar alls. Ég kippti þessu með mér og hugsaði "Fjandinn sjálfur, ég get þó allavega þurrkað mér um hárið með þessu!" Hahaha... ég kom semsagt heim, henti mér í sturtu og já, sama system og í Danmörku, enginn sturtuklefi, bara sturtuhengi og svona rúðuskafa á löngu priki sem á að nota til að skafa gólfið eftir sturtuna. Reyndar frábært að baðherbergið er bara hérna við hliðina á herberginu mín og ég deili því bara með einum öðrum. Heyrðu já, þessa 3ja metra "tusku" eða hvað sem þetta nú var reif ég svo niður og notaði sem "handklæði" og þetta virkaði bara prýðilega!

Með tandurhreint hár fór ég með strætó niður í city center í gær, var reyndar pínulítið lost til að byrja með þegar ég kom þar sem það eru engin fjöll hérna í kring, bara tré og og vötn. Ég gat þó allavega áttað mig þegar ég sá í hvaða átt vatnið rann í einni af þessum milljón ám sem renna gegnum Helsinki. Þá gat ég staðsett mig m.v. einhver kort sem ég sá á strætóskiltum. Já nú borgar sig að vita að allt vatn rennur til sjávar ;) Ég var samt frekar týnd og hugsaði "Shit, ég verð að nálgast kort eða eitthvað tourist info dæmi" og viti menn, ég labba literally á sérstaka "Kortabúð" þar sem ég gat keypt landakort af öllum andskotanum, m.a.s. Íslandi haha, þvílík heppni! Ég keypti mér fokdýrt 14 evru kort og hélt áfram labbinu.

Ég stoppaði í einhverri risabúð, blanda af Ikea og Rúmfó sem heitir Kodinykkönen til að kaupa mér handklæði og skv. verðinu á rekkanum átti þetta að vera frekar ódýrt, bara 2 evrur fyrir það litla og 14 fyrir það stærra. Ég gerði svo heiðarlega tilraun til þess að finna mér kodda en læt það bíða þar til ég flyt niður í Pasila þar sem skólinn minn er. (Já hér segi ég niður, því ég lagði Helsinki kortið mitt á gólfið í herberginu í gærkvöldi til að reyna að átta mig á staðarháttum, þar sem ég get það ómögulega á röltinu þar sem það eru engin fjöll, bara medium size hús og endalaus skógur!) Jæja, ég fór að kassanum í Kodinykkönen með handklæðin góðu og heyrðu, stelpan rukkaði mig um 21 evru fyrir stærra handklæðið, dísús, er gullþráður í þessu og las ég vitlaust á rekkann? Neinei, haha þetta er Múmínmömmu handklæði!!! Mér finnst það svo dásamlega fyndið að ég vildi ekki einu sinni fara og ná mér í ódýrara handklæði. Ég er semsagt búin að veiða fyrsta múmínálfinn minn, óafvitandi!

Ég rölti um miðborgina í smátíma í gærdag, alveg heilluð enda er þetta falleg borg. Snyrtilegar götur og fallegar byggingar, smábátahafnir, villtir hérar á umferðareyjum, bara complete Disney ævintýri!  Ég verð dugleg að taka myndir, steingleymdi því alveg í gær! Ég held ég eigi eftir að fíla mig ágætlega hérna.

Ég kom heim í gærkvöldi og setti á góða tónlist og kláraði að lesa Rimla Hugans, mæli með henni. Synd að ég sé ekki búin að lesa fleiri bækur eftir Einar Má, hann verandi nágranni uppi í Grafó og svona.

Heyriði, ég ætla að drífa mig í smá leiðangur með strætó, búin að stúdera www.ytv.fi sem er svona eins og bus.is og held ég taki test-drive svona til að verða ekki of sein á morgun í skólann. Næstu tvo daga er ég nefnilega í svona orientation og kynningu á skólanum, voða fjör.

Fróðleiksmoli dagsins:
Kaffi á finnsku er kahvi - hljómar alveg eins!

Guð, þetta blogg er bara orðið heil bs ritgerð...

Kveðjur frá Helsinki!

p.s. ég gleymdi að segja frá því að rétt áður en ég sá sterakanínuna á umferðareyjunni rak ég augun í risastórt seglskip sem var lagt við litla höfn á einni ánni, og þetta var svona eins og sjóræningjaskip eða eitthvað, talandi um ævintýri!!! Heyrðu og ekki nóg með það heldur er þetta skip veitingastaður!!! Hver vill koma í heimsókn og borða með mér þar?


Flyt til Helsinki eftir 7 daga

Elsku Finnarnir...

Ég rétt missti af þessu stórmóti en ég flyt eftir 7 daga til Helsinki! W00t


mbl.is Keppa í svitabaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndin á föstudögum

Tja, ef ég væri íþróttamaður... þá væri ég í landsliðinu í bruni.

Er sólbruni ekki annars íþrótt?

Ho ho ho...


Akureyri, öll lífsins gæði

Ég skrapp norður á Akureyri um helgina í afslöppunarferð. Maður á að gera meira af því að dekra við sjálfan sig svona. Ég spókaði mig í góða veðrinu á laugardaginn í miðbænum, verslaði auðvitað aðeins enda skylda þegar maður ferðast hehehe... Fór svo í langan göngutúr í sólinni, tanaði á pallinum hjá Báru (var með sólarvörn 20 nota bene!!!) og hitti alla sem mig langaði að hitta :)

Svala og Benni, þúsund þakkir fyrir æðislegt matarboð á föstudagskvöldið.

Louisa, það er makalaust hvað þú ert einstök, þó þú búir í Keflavík.

Elsku Báran mín, takk fyrir mig :)

 

Heyrðu og já, hérna eru myndir frá Landsmóti um daginn:)

Ég, Jana og Tinna skemmtum okkur allt of vel á Landsmóti. Línur eins og "Halló, hafið þið séð svona flottan fána? þrjú og fimm!" og "Staðreynd lífsins..." voru mikið notaðar þá helgi! Ásamt því að rímið var óspart notað eins og alltaf W00t

...og ég kom sko heim þrútin og sólbrunnin til helvítis og til baka... Ég mætti án gríns ekki í vinnuna á mánudeginum út af sólbruna og bólgum í andliti, er þetta hægt?

 

28 dagar þar til ég flyt til Helsinki...


Ísland, bezt í heimi...

Ég er að fara á Landsmót um helgina með Jönu og Tinnu. Hér voru bökuð skinkuhorn og kanilsnúðar í dag og flatkökur smurðar með hangikjeti... svoleiðis á að borða á hestamannamótum, það er eiginlega skylda! Ef ég hefði haft tíma til þá hefði ég spreytt mig á kleinubakstri!!!

Ég er líka búin að vera að æfa mig með myndavélina mína og tókst frekar vel til með miðnætursólina í síðustu viku... eiginlega rosalegt hvað við erum heppin hérna á Íslandi. Ég og Lárus bróðir fórum í nokkra hjóla- og labbitúra til að fanga augnablikið... hér eru nokkur sýnishorn Smile

solarlag1 solarlag2 solarlag3 solarlag4 solarlag5 solarlag6 solarlag7 solarlag8 
Fleiri myndir eru á Flickr síðunni minni.


Veikindi smeikindi...

Ég ætla sko að leggja fram formlega kvörtun til yfirvaldsins. Ég er búin að eyða þessari helgi í það að vera veik og ég er ekkert að skána! Þetta á að vera bannað á sumrin!!! Frown

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband