High as a kite!
13.10.2008 | 12:45
Ég ætla að byrja þessa færslu á því að monta mig af því að eiga bestustu vinkonu í heiminum. Eyrún mín, ég veit ekki hvort ringlaða manneskjan sem hringdi í þig í dag í geðshræringu yfir pakkanum hafi verið sú Rósa sem þú þekkir en pakkinn sem þú sendir mér gladdi mig svo mikið að ég er enn að jafna mig. Þetta er svona eins og ég sagði, endurupplifun á 10 ára "eftir jólapakka" rush-inu! Ég sat með pakkann í fanginu og reif upp úr honum góssið með tárin í augunum og las bréfið frá þér með ekka en samt bara af gleði, ég er ekki með heimþrá, ég er bara happy happy joy joy! Ég raðaði góssinu á rúmið og starði bara á það. Ég varð eiginlega að taka mynd!
Fyrir ykkur hin sem eruð forvitin þá var í pakkanum semsagt eftirfarandi:
3ja bls. bréf frá elsku Eyrúnu og skælbrosandi mynd, Heimsljós eftir Laxness, Body Shop bjútídót, retro öskubakki fyrir gesti eða gersemabox fyrir eyrnalokka (sýnist þetta vera einmitt það sem mig vantaði undir mína sem liggja eins og hráviði uppi í hillu!), barmmerki sem á stendur "Ég tala smá íslensku" og "Electrified", 18,25 DKK (já ég taldi haha) sem munu koma sér einstaklega vel eftir nokkrar vikur í Danmörku, krossorðaspilið (ég mun gera mitt besta að reyna að læra það svo lengi sem það er ekki eins flókið og teningaspilið í sumar), 2 sleikjóar í laginu eins og íslenski fáninn, andlitsmálning til hátíðabrigða - í fánalitunum að sjálfsögðu, kúlusúkk og lakkrískonfekt, Bændablaðið og Grapevine, MacBeth teiknimyndasaga, bókin Ungfrú heppin, Geðorðin 10 á ísskápinn (þetta vantaði mig einmitt, saknaði þess frá ísskápnum mínum í risinu), kokkteilabók frá ÁTVR (nauðsynlegt í útlandinu!), 3 póstkort með yndislegum kveðjum, túristabæklingar um Ísland, heimsfrelsis bæklingur og auglýsing frá Eymundsson sem á stendur "Með nesti og nýja skó". Ef þetta kallast ekki survival kit, þá veit ég ekki hvað!!!
Ég er semsagt með maskara niður á höku að drekka soya kókómjólk þér til heiðurs Eyrún mín og er að gæða mér á kúlusúkkinu!!!
Samt sem áður, þá er ég að velta fyrir mér hvernig póstþjónustan virkar hérna í Finnlandi... eða hvort Pósturinn heima sé að klúðra þessu en pakkinn var sumsé allur límdur saman og miði framan á honum sem á stóð á finnsku: "umbúðir skemmdar" - Þetta er vægast sagt merkilegt, að fá 2 pakka senda og báðir laskaðir (þó mömmu pabbi hafi verið einstaklega skemmdur þarna um daginn!)
Helgin var einnig svakalega skemmtileg. Ég skutlaði mér á tónleika á laugardaginn ALONE ef fólki þykir það eitthvað skrýtið. Mér þótti það hinsvegar bara fínt, ég réði mér sjálf og enginn að flækjast fyrir mér. Tónleikarnir voru haldnir í Jäähalli skautahöllinni hérna rétt hjá svo ég var skotstund að henda mér þangað. Ég bý nefnilega á svo hentugum stað, allar svona tónleikahallir eru sitt hvorum megin við mig og bara 2-3 stopp með tram.
Já ég sumsé skellti mér á þessa grænu tónleika, "Kiitoskonsertti". Gegn því að ég skrifaði eitthvað grænt loforð á heimasíðu tónleikanna þá fékk ég miðann á einungis 3 evrur sem ég gat auðvitað ekki sleppt svo ég lofaði að muna að slökkva ljósin áður en ég færi út úr húsi á daginn til að spara rafmagn, vonum að ég standi við það!
Ég fór eingöngu á þessa tónleika til að sjá Apocalyptica á sviði og stóðu þeir algjörlega undir væntingum. Ég sat með gæsahúð og hlustaði á þá taka uppáhaldslögin mín. Ég lét mig svo bara hverfa þegar bandið á eftir þeim byrjaði sem var eitthvað nýbylgju finnskt krúttrokk með óþolandi falskri söngkonu.
Ég skildi ekki neitt sem neinn sagði svona milli laga eða þegar einhver kynnir kom og sagði einhverja agalega skemmtilega brandara (skv. þeim sem sátu næst mér þar sem þau hlóu mikið...) en ég brosti þá bara út í annað og þóttist vera kúl og eins og ég skildi allt saman Ég kom þó allavega brosandi heim eftir að hafa hlustað á Apocalyptica live fyrir skitnar 3 evrur!
Annar skemmtilegur viðburður helgarinnar var sundferð með Danielu hinni þýsku í gær, sunnudag. Ég hef semsagt komist að því að útisundlaugar eu svakalega íslenskt fyrirbæri! Hér eru tvær útisundlaugar og þær eru opnar á sumrin, punktur. Jæja, nóg með það. Við semsagt skelltum okkur í sund sem kostaði 5 evrur. Því miður var ég ekki með linsurnar í mér svo ég get ekki lýst lauginni í smáatriðum þar sem ég er eins og blind mús án gleraugnanna í sundi. Ég get þó allavega sagt það að sundlaugin sem maður átti eingöngu að synda í var ísköld og svakalega mikið klórmagn. Svo var önnur laug þar við hliðina á til að leika sér í, heitir pottar og svo meðalheit laug með allskyns nuddi og svona "fossum" eins og eru t.d. í Bláa lóninu, agalega fínt, Finnarnir fá prik fyrir þetta. Þegar við vorum í nuddlauginni spurði Daniela hvort við ættum ekki að skella okkur í sauna svo ég spurði bara "sure, where is it?" og fékk til baka "in the dressing room, silly". Kynjaskipt sauna, mjög fínt. En nei, allsber sauna, inn í klefana mátti sko alls ekki fara í sundfötum. Ég þurfti að klæða mig úr sundbolnum, taka handklæðið með til að sitja á því því bekkirnir voru svo heitir og svo sátum við þarna í haug, allsberar konurnar. Frekar skondið... en hressandi að fara í sauna, ég viðurkenni það.
Það er lenska hérna í Finnlandi að það er alltaf fólk að tala í hátalarakerfum alls staðar, líka í sundlauginni. Voða almennileg konurödd að minna gesti á það að baða sig áður en farið er ofan í laugina. Þetta er líka í verslunum hérna, alltaf einhver að tala... svona í 90% tilfella veit ég ekkert hvað blessað fólkið er að segja en í sundlauginni sagði konan þetta þó líka á ensku og sænsku!
Svona í heildina var þessi sundheimsókn afar skemmtileg en aðeins of dýr fyrir minn smekk því miðað við gengi kostaði þetta mig 755 íslenskar krónur sem er aðeins í dýrari kantinum því svo er alltaf time limit á þessum sundheimsóknum, við máttum semsagt bara vera 2 og 1/2 tíma ofan í lauginni! Einnig sá ég fyndnustu reglu í heimi: "Swimming in shorts is strictly prohibited!" - það útskýrir bara allt fyrir mér af hverju útlendingar heima á Íslandi eru alltaf í tiny Speedo brók í sundi. From now on finnst mér það bara ekkert skrýtið!
Ég verð svo að minnast á fjörfiskinn (silunginn) í hægra auganu sem er búinn að vera viðvarandi núna í 3 sólarhringa... ég gúgglaði þetta og þar stendur að ég eigi ekki að hafa áhyggjur fyrr en hann hefur verið í gangi í meira en viku... ég bíð átekta. Ég athugaði á ordabok.is hvað fjörfiskur þýðir á ensku og þar stendur "tic" en ég hef alltaf ályktað að það sé maur... ég er ekkert með maur í auganu! Ég fór að hugsa upp skondnar útskýringar fyrir útlendingana hérna af hverju ég er ósjálfrátt að blikka þá og datt í hug eftirfarandi:"Yes, I have, you know, a action or a fun fish in my eye... you know trout?" - Held mér yrði bara skilað á vistheimili í Lapplandi ef ég reyni að þýða þetta en hey, ég kemst þá allavega í ferð til Lapplands frekar ódýrt!
Ég held ég láti þetta nægja í bili, ég ætla að halda áfram í gleðivímunni minni og dást að gersemunum mínum.
Knús og kossar frá Helsinki!
Ykkar,
Rósa Gréta
Athugasemdir
ji en ofsalega falleg gjöf:) heppin að eiga svo góða vinkonu ! knús elsku Rósa mín:)
jolly 13.10.2008 kl. 13:37
Njóttu gersemanna í botn!
- en gaman að vita ástæðu pínuSpeedobrókanna sem að flestir útlendingar spóka sig um í hér á landi!
hvað ætli sé meðalfjöldi barna hjá þessum einstaklingum sem að þrengja svona að "fermingarbróðurnum"???? tja.. maður spyr sig! +
love u!
Elí frænka 13.10.2008 kl. 13:38
Geðveik gjöf! Skil mjög vel að þú hafir verið ánægð og hrærð með þetta =) *Ahem* jájá krúttlega nýbylgju falska... whatever reynist svo vera The Sounds sem er í miklu uppáhaldi hjá mér! Rósa viltu skipta, nú þegar búin að hitta tengdapabba minn og sjá eitt uppáhalds bandið mitt live, og þú tókst ekki einu sinni eftir því ;) Mehehhe...
Og já 18 krónurnar eiga eftir að koma sér vel í kreppunni hér í DK ;) Knús til Helsinki frá Århus =*
Tinna Kristinsdóttir 13.10.2008 kl. 15:14
Hahaha... þetta er magnað. Ég reyndi að gefa þeim séns, sat gegnum tvö lög og stóð svo bara upp og fór hahaha so sorry. Og hvað er málið með gelluna að vera ekki í neinum buxum og alltaf að beygja sig niður að gólfi?
Ég sagði þér að þú ættir bara að koma í heimsókn til mín, þú hefðir t.d. getað komið með mér á þessa tónleika!
Rósa Gréta Ívarsdóttir, 13.10.2008 kl. 15:18
Og stórt knús til baka... hlakka svo til!!!
Rósa Gréta Ívarsdóttir, 13.10.2008 kl. 15:20
Verði þér nú að góðu, elsku Rósa mín! Ef þú átt þetta ekki skilið í ástandinu eins og það er núna, þá veit ég ekki hver!
Hlakka bara til að sjá þig þegar þú kemur loksins heim - ertu búin með helminginn núna?
Kv. Kristín
Eyrún Ellý 13.10.2008 kl. 22:26
Hvað varð um örpistla með dálitlu myndaívafi sem bara segja "Fokkaðér'addna!" :D Gaman að heyra að þú hafir það gott í landi Finna.
Evru baráttu kveðjur
Palli 15.10.2008 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.