Komin heim :)
2.2.2009 | 21:24
Jæja... þá er þessari heimsreisu lokið! Rúmlega mánuði í ferðatösku lokið...
Þegar ég bloggaði síðast var ég í Emu Park á leiðinni á krókódílabúgarð daginn eftir. Það var nú meira fjörið. Við fengum okkur krókódíl í hádegismat og fengum svo að skoða dýrin í návígi og knúsa einn lítinn... eða knúsa í hæfilegri fjarlægð frá andlitinu á okkur þar sem hann hefði getað mölbrotið á okkur kjálkann með einu höggi. Steikin var svakalega góð en það var nú ekki hápunktur dagsins... HITINN... og RAKINN - við erum að tala um 35 stiga hita og 80-90% raka, shit... þetta var í fyrsta skipti sem ég hef komið út úr bíl og fengið móðu á gleraugun út af hita úti við - haha! Um kvöldið fengum við að upplifa alvöru tropical rigningu... og við erum að tala um að þetta er eins og maður sér í bíómyndunum... m.a.s. froskarnir leituðu skjóls!
Jæja, þegar heim var komið til Brisbane tók við rosalega skemmtilegt kvöld heima hjá Írisi frænku Hrafnhildar, gómsætt grill ásamt mesta dýralífi sem ég hef kynnst í grillveislu - þar komst ég að því að ég er eiginlega orðin pollróleg yfir því að hafa eitthvað skríðandi á öxlinni á mér... that's a first! Elsa eldaði svo fyrir okkur kengúru á laugardagskvöldinu og okkur fannst hún svo æðisleg að hún var elduð líka á sunnudeginum áður en við fórum haha!
Á laugardeginum... daddaradamm - þá fengum við okkur tattoo, ég með mitt þriðja, Hrafnhildur sitt fjórða og Eyrún sitt fyrsta! Stofan hét því skemmtilega nafni "Dragon's Lair" og er eingöngu gaman að segja það upphátt með dramatískum breskum hreim, prófið það... í alvöru! Við Eyrún fengum okkur á ristina orðin "Stóra systir" á aboriginal tungumáli og Hrafnhildur fékk sér "Dreams come true" á Hindi á annan úlnliðinn. Við áttum svo í mestu erfiðleikum við að ganga ekki á fólk þann daginn þar sem við vorum svo mikið að skoða nýju listaverkin - haha!
Heyrðu, jæja... við Eyrún lögðum svo í hann heim á leið á sunnudagskvöldinu 25.jan, flugum til Sydney og eyddum nóttinni á flugvellinum þar í faðmi kakkalakka og annarra ferðalanga. Við komum til Peking eftir millilendingu í Shanghai um hálfellefu það kvöld og tókum taxa á hótelið okkar. Jah, það var nú voða auðvelt nema hvað að helvítis gæjinn svindlaði á okkur... rukkaði okkur margfalt það sem taxinn átti að kosta... en okkur var nokk sama þar sem maðurinn talaði ensku og kom okkur klakklaust á leiðarenda! Við vorum svo þreyttar og ónýtar að við sofnuðum eiginlega samstundis og sváfum í einhverja 10 tíma - lengsti svefninn okkar í mánuð!
26.jan skutluðum við okkur upp á Kínamúrinn í Badaling, rétt utan við Peking - já, það var sko lífsreynsla! Ég hélt ég myndi aldrei í lífi mínu verða svo víðförul að standa á Kínamúrnum en nú get ég krossað við það í mínum bókum! Við vorum líka svo fyndnar að senda sms-ið "Ég segi allt í fína frá Kína" uppi á múrnum - já... kannski var það fyndnara á staðnum! Svo keyptum við auðvitað tacky minjagrip uppi á múrnum... gullpening sem á stendur "I climbed the great wall" með nöfnunum okkar á... alveg ultra tacky! Það má því eiginlega segja að við höfum komið Ólympíugullinu heim á endanum eða hvað? Toppurinn á þessari ferð á múrinn var táknmálið sem ég talaði við leigubílstjórann okkar sem var auðvitað ótalandi á ensku og það að ég fékk stúdentaafslátt út á íslenska ökuskírteinið mitt - GERI AÐRIR BETUR!
Ég heillaðist lítið af Peking, eiginlega ekkert... mengunin er svo gígantísk að maður sér sólina sem rauða kúlu uppi á himninum... og maður er þurr í kverkunum og nefinu út af þessu ógeði - ég hefði bara ekki getað ímyndað mér þetta - nú skil ég af hverju fólk er með læknagrímur í þessu landi við allar aðstæður!
Ferðalagið hélt svo áfram 28.jan þar sem við urðum svo heppnar að fá 1 business class sæti á leiðinni til London þar sem Eyrún hafði verið uppfærð - við skiptum sætinu því á milli okkar 5 1/2 tími á haus (ójá nú komumst við að því að flugið Lon-PEK er 11 tímar) og já, þessi uppfærsla stytti flugið fyrir okkur alveg um helling, það var yndislegt að geta aðeins teygt úr sér... væri eiginlega til í að geta alltaf flogið á business class!
Við komum svo heim á miðnætti 28.janúar - örþreyttar og úrvinda en brosandi út að eyrum með vel heppnað ferðalag :) Við fengum svo fallegt veður hérna fyrstu dagana og það virðist ætla að haldast... ég gat ekki annað en sett Pottþétt Jól 3 á fóninn í bílnum því þessi snjór kom mér í feiknajólaskap!
Myndir frá þessu ferðalagi telja um 1.500 stk frá mér, annað slíkt frá Eyrúnu og örugglega frá Hrafnhildi líka... þær munu koma inn á netið eftir að við stöllur förum gegnum þær saman!
Nuff said í bili!
Athugasemdir
Vá, skemmtileg ferðasaga. Þetta hefur verið æðislegt, ég er eiginlega orðlaus. Bara frábært hjá þér, þú er órúlega dugleg að gera þetta og kjörkuð. En ég segi bara velkomin heim !!! Kveðja úr Hnífsdal.
Anna Kristín 2.2.2009 kl. 21:50
Vá hvað ég hefði hlegið að "allt í fína í Kína" brandaranum hahaha Rosa gott að vera búin að fá þig heim Rósa mín. Your BMW
Jana 2.2.2009 kl. 22:22
Æðislegt:) til lukku með nýja tattúið, ég hlakka mikið til að sjá það! heyrðu svo deilum við Kínamúrnum beibí...ég þarf núna að dríííífa mig til ástralíu...þetta hljómar alltof vel hjá þér:)
jolly 2.2.2009 kl. 22:31
Dugleg ertu, vá, hvað ég meikaði ekki að blogga í gærkvöldi... en já, myndirnar eru komnar í tölvuna (tada!) og bíða sortéringar.
Eyrún Ellý 3.2.2009 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.