Horny reindeer meets Icelandic viking
3.12.2008 | 16:56
Föstudagur 28.nóvember
05:38 - Ég vakna við sms frá Þjóðverjanum: "Hvar ertu?"
06:10 - Ég er komin út á lestarstöð með allt mitt hafurtask, kófsveitt eftir að hafa vaðið snjóskaflana á leiðinni.
06:55 - Mæti bókstaflega á harðaspretti inn í flugstöðina í Vantaa 5 mínútum eftir síðasta kall út í vél eftir að Þjóðverjinn bað flugvélina að bíða eftir seina Íslendingnum.
Mæting í Rovaniemi í Lapplandi var eins og að koma inn í bíómynd. 10 stiga frost, snjókoma, snjór yfir öllu og mikið af jólaskreytingum - gat þetta verið betra? Hótelið æði og frábært morgunverðarhlaðborð sem beið okkar meðan við biðum eftir að tjekka okkur inn á hótelið. Restin af föstudeginum fór svo í svona almennan túristaleiðangur um miðbæ Rovaniemi, kvöldmat á Rocktaurant sem Lordi hannaði og svo afslöppun og videogláp á hótelinu. Jú Rovaniemi er einmitt heimabær Lordi sjáið til!
Laugardagur 29.nóvember
11:00 vorum við mættar í svaka kuldagalla múnderingu upp í skóg, tilbúnar í hreindýrasafarí og að heimsækja Husky farm.
Jæja, hreindýrasleðaferðin gekk nú ekki alveg snurðulaust fyrir sig. Óhapp nr. 1 var það að rennilásinn á kuldagallanum mínum var bilaður og ekki mögulegt að fara til baka með mig og skipta um. Ég tók hrausta Íslendinginn á þetta og sagðist ekki verða kalt - sem reyndar stóðst, ég var sú eina sem var alltaf að rífa mig úr gallanum að ofanverðu því mér var svo heitt!!! Kannski því ég var í lopasokkum, thermo bol og góðum buxum innanundir en ekki gallabuxum og peysu eins og hinir útlendingarnir ;) Ég og Þjóðverjinn vorum settar á sama sleða, aftasta sleðann og á hinum voru litlir Kínverjar og ein mamma með barn. Ekki alveg sanngjarnt gagnvart okkar hreindýri sem heitir Nina sem þurfti að draga tvær íturvaxnar meyjar gegnum skóginn með tilheyrandi átökum. Satt að segja var okkar hreindýr öflugast í ferðinni, alltaf að reyna að troðast fram fyrir næsta sleða og með eintóman æsing við börnin á þeim sleða sem skríktu eða öskruðu af hræðslu þegar Nina, the horny reindeer okkar kom másand og blásandi upp í andlitið á þeim.
Hápunktur ferðarinnar var þó algjörlega á Husky farm þegar við fengum að fara einn hring á hundasleða - sjetturinn, þvílíkur spenningur. Hundarnir spangóluðu af spenningi rétt fyrir take-off og svo þutu þeir með okkur á fleygiferð gegnum skóginn án þess að gefa frá sér múkk. Þarna voru um 350 hundar sem þurfa um 800 kg af mat á dag og eiga allir sitt eigið hús og agalega krúttlegir. Okkur var síðan boðið inn í hlýjan hytte þar sem við fengum dísætan og heitan bláberjasafa og piparkökur. Voðalega kósý.
Jæja, á bakaleiðinni frá Husky farm ákvað Nina svo að halda áfram að reyna að stinga sér fram úr sleðanum fyrir framan enn og aftur en í eitt skiptið vorum við að fara yfir litla brú yfir skurð svo sleðinn okkar fór á hlið og ég kútveltist ofan í snjóskafl og var eins og afvelta rolla í allri þessari kuldagallamúnderingu í skurðinum! Ég var í makindum mínum að reyna að taka myndir svo ég varð handalaus í fallinu og það eina sem stóð upp úr snjónum var annar handleggurinn með myndavélinni því herregud, ekki ætlaði ég að láta hana blotna!
Ég fékk svo langþráð "Reindeer Driver's Licence" eftir ferðina og fékk það afhent með orðunum "You completely deserve it" - haha... fjör!
Á sunnudeginum fórum við Þjóðverjinn á aðalskrifstofu finnska jólasveinsins við heimskautsbaug og hittum kauða og fengum mynd með honum. Hann sagðist því miður ekki tala íslensku en talaði við mig á skandinavísku, fínasti kappi... en jafnast ekki á við mína 13 jólasveina, Grýlu og Leppalúða og elsku jólaköttinn! Ég varð fyrir vissum vonbrigðum með þetta "Santa Claus Village" eins og það er kallað þar sem þetta er eiginlega bara þyrping af souvenir búðum og svo eitt risa snjóhús sem er kaffihús/bar líka. Mjög gaman samt sem áður að koma þangað og standa á heimskautslínunni þar sem ég hef ekki farið út í Grímsey og staðið á henni þar, skandall... bæti úr því þegar ég kem heim!
Mánudagurinn var mjög skemmtilegur líka þar sem við fórum á Arktikum, sem er mjög vinsælt og flott safn í Rovaniemi og samastendur af alls kyns exhibitions um lífið við heimskautsbaug. Ég lenti í miklum umræðum við Þjóðverjann eftir heimsóknina til jólasveinsins daginn áður þar sem hún hélt því statt og stöðugt fram að Norðurpóllinn væri í Lapplandi, öss - skandall - ég gat hinsvegar sannað mál mitt á safninu þegar ég fann kort af heiminum sem sýndi þetta að þetta væri tóm þvæla, sama hvað krakkar skrifi utan á bréfin sín til jólasveinsins! Reyndar sýndi sama kort heimskautsbaug ganga þvert í gegnum Ísland og ég vissi að þetta væri ekki rétt en ég sagði ekki orð þar sem ég hafði unnið Norðurpóls umræðuna hahaha...
Þriðjudagsnótt fór í að ferðast heim til Helsinki. Ég var vöknuð kl. 4 því Þjóðverjinn vildi fara upp á flugvöll kl. 5 þó við ættum ekki flug fyrr en 6:30, tja... ég lét undan þar sem ég hafði nú næstum látið okkur missa af ferðinni á föstudeginum en what the hey... haha - ég var svo þreytt þegar ég kom heim til Helsinki að ég svaf eiginlega non-stop í sólarhring. Ég tók nefnilega ekki fram að bæði laugardags- og sunnudagskvöld var ég aðeins úti að tjútta með tveimur Spánverjum sem ég kynntist fyrra kvöldið ... mikið fjör og mikið grín, ég held ég hafi aldrei áður farið út að skemmta mér í lopasokkum við kjól og verið nokkurn veginn slétt sama ;) Held ég starti þessu sem tísku þegar ég kem heim til Íslands!
Jæja nóg í bili, 19 dagar í heimför...
p.s. Bara svo ég útskýri titilinn á blogginu.
Þjóðverjinn var að reyna að finna orðið fyrir það "að hafa horn" og notaði orðið horny... mér fannst það fyndið!
Athugasemdir
Heyrist á öllu að þú hafir skemmt þér vel.. algjört ævintýri! Og nú veit ég hvert ég leita ef mig vantar að láta að skutla mér einhvert á hreindýri ;)
Tinna Kristinsdóttir 3.12.2008 kl. 17:20
Já, ég er með plagg sem segir að ég sé lögleg - ekki vandamálið, hviss bamm!
Rósa Gréta Ívarsdóttir, 3.12.2008 kl. 17:21
Æði, djöfull hefur verið gaman! Hreindýrið á myndinni lítur dálítið út eins og íslenskt, sýnist þú líka vera í hrókasamræðum við það!
Við verðum að tékka á því í Ástralíu hvort við getum ekki fundið not fyrir þetta ökuskírteini þitt! "Yes, I have a reindeer drivers licence, will that do?" hahaha
Annars finnst mér jólakortið frábært og finnski jólasveinninn er örugglega besta skinn. Hann er sko skyldur okkar jólasveinum í föðurætt... sagðirðu honum það ekki?
kv. Kristín
Eyrún Ellý 3.12.2008 kl. 18:24
Jú einmitt, hann bað að heilsa Íslandi kærlega og sagði "Íslenska, því miður talar jåg ikke islenska men skandinavisk kan vi tala" - hress og krúttlegur kall og notar agalega stóra skó.
Já þessi hreindýr eru pottþétt skyld okkar hreindýrum. Hinsvegar sá ég uppstoppaðan elg í Arktikum - það dýr vil ég ekkert hitta svona á förnum vegi m.v. það sem ég hef heyrt um skapið sem þeir hafa, þeir eru líka huuuuges!
Heyrðu, góð hugmynd með ökuskírteinið - ég set það á vísan stað svo ég gleymi því ekki!
Rósa Gréta Ívarsdóttir, 3.12.2008 kl. 18:28
Alltaf gott að fara vel klæddur á djammið
ég fer aldrei án vettlinga og helst með húfu í veskinu líka.
Hlakka til að hitta þig um jólin
Bára Sigurjóns 3.12.2008 kl. 18:53
Hehe, hljómar eins og góð ferð. Finnst þó afskaplega undarleg pæling að skella bar í Santa Claus village :D
Dóri 4.12.2008 kl. 05:32
haha.. afvelta í snjóskafli ... sé þetta alveg fyrir mér... með ónýtan rennilás og gallinn fullur af snjó!!
En satt er það ... það er ekki sama hvernig maður klæðir sig... ég kafna vanalega þegar ég fer í kuldagalla... af því að maður er svoooo vel klæddu innanundir! Þetta er alið upp í manni... "passaðu að láta þér ekki verða kalt.. vettlinga, trefil og húfu... og rennt uppí háls"
knús til Helsinki :o)
Elí frænka 4.12.2008 kl. 11:41
öh.. vá hvað mér finnst þetta fáránlega mega spennandi.. :) ég hefði sko verði til í að sjá hann sveinka.. og jafnvel "the horny Nina".. það er líka alveg draumur hjá mér að fara á svona hundasleða... husky hundar eru svo fáránlega fallegir.. langar í solleiðis.. og pug.. :)
svala 5.12.2008 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.