Rósa og randaflugan...

Ég á við það hvimleiða vandamál að stríða að vera dauðhrædd við randaflugur, býflugur, hunangsflugur... já allt sem er lítið, röndótt, loðið, suðar og getur flogið í þokkabót!

Ég vaknaði semsagt í gærmorgun við það að feiknastór randafluga var að sveima yfir rúminu mínu. Atburðarásin var þessi:

07:45 - Vekjarinn á símanum mínum fer í gang, voða ljúft lag og ég stilli vekjarann á 08:15 (já, ég geri þetta viljandi til að geta sofið aðeins lengur)

07:50 - Óþægilegt suð smýgur inn í draumalandið hjá mér sem veldur því að ég galopna augun og sé móta fyrir suðandi fyrirbæri að þvælast yfir rúminu mínu. Ég geri mér strax grein fyrir því að þetta er randafluga, dreg sængina upp fyrir haus og held niðri í mér andanum í von um að hún fari. Þarna lá ég, örugglega í svona 10 mínútur með dúndrandi hjartslátt og flökurt af hræðslu meðan ég heyrði hana suða og hlunkast eitthvað þarna um svefnherbergið. Ég íhugaði að teygja mig í símann til að senda SOS sms á einhvern til að bjarga mér úr prísundinni en var of skíthrædd til þess. Ég var sannfærð um það að ef ég færi að teygja mig eitthvað undan sænginni, þá myndi hún koma og stinga mig.

08:05 - Ég ákveð að teygja mig í símann og gleraugun og læðist fram úr rúminu og inn á baðherbergi þegar ég hætti að heyra í henni. Ég lokaði hurðinni inni á baði þegar ég var búin að ganga úr skugga um að randaflugan væri ekki þarna inni. Það er svo skrýtið þegar maður er svona skelfingu lostinn, það er eins og öll skilningarvit aukist til muna... mér finnst alltaf eins og ég sé með ofurheyrn þegar ég lendi í þessum aðstæðum! Allavega... ég fer í bað og þar sem baðherbergið mitt er hálfgert sýnishorn fyllist allt af gufu því ég var sko engan veginn að fara að opna glugga til að hleypa fleiri suðandi djöflum þarna inn!

08:15 - Skutlaðist í föt á ljóshraða, setti m.a.s. á mig make-up og gerði mig líklega til að blása á mér hárið. Það gekk mjög hratt fyrir sig, fyrir utan örstutt stopp öðru hverju til að gá hvort röndótti djöfullinn væri nokkuð að gera sig líklegan til að ráðast á mig.

08:45 - Komin út í bíl og brunaði í vinnuna með gæsahúð...

Ég sá röndóttu morðfluguna ekkert aftur þann daginn svo ég fór að hugsa hvort ég hafi ímyndað mér hana, eða dreymt hana... í alvörunni... ef svo er, þá er það ekkert slæmt, því í draumaráðningabók stendur:

"Ef randafluga flýgur í átt til þín boðar það hagsæld"

Allavega... ef einhver vogar sér að segja einu sinni í viðbót við mig "bla bla blu blu hún gerir þér ekki neitt muuu " þá gef ég viðkomandi rækilega á lúðurinn...  það þýðir ekkert að segja þetta við mig, það er ekki eins og hræðslan hverfi bara eins og dögg fyrir sólu allt í einu...

"Ahh já einmitt, hún gerir ekki neitt, ok best að vera ekki hrædd... trallala!"

No, not gonna happen... no not really

En jæja, ég ætla að láta þetta duga í bili, ætla að skella mér norður í Kjarnaskóg um helgina með mömmu, pabba og Lárusi bróður... það var svo geggjað gaman hjá okkur fyrir vestan í Birkihlíð fyrstu helgina í júlí að ég get eiginlega ekki beðið eftir því að fara norður!

Ætli það sé ekki vísbending um það að ég sé að verða fullorðin... að mér finnist gaman í ferðalögum með mömmu og pabba? Það var klárlega mest hallærislegt þegar ég var unglingur!

En já, nuff said...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

lausn!  keyptu þér brúsa af skordýraeitri og geymdu við rúmið.  ef svo ólíklega vill til að kvikindið mæti aftur eða annað eins þá þarftu bara að skjóta hendinni undan sænginni og grípa skordýraeitursbrúsann og þegar þú ert nógu huguð þá kippirðu sænginni niður og spreyjar eins og óð.  death to randyfly.

louie 13.7.2007 kl. 21:26

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Kelling. Svo finnst fólki skrítið að karlar séu með hærri laun!

:)

Ingvar Valgeirsson, 17.7.2007 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband